Erlent

Brown gefur gott fordæmi

Gordon Brown með rauðu skjalatösku fjármálaráðherrans.
Gordon Brown með rauðu skjalatösku fjármálaráðherrans. MYND/AP

Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands og líklegasti eftirmaður Tonys Blairs í forsætisráðherrastólnum, sagðist í dag sjálfur ætla að ganga á undan með góðu fordæmi í umhverfismálum. Brown er mjög umhugað um umhverfismál og hlýnun andrúmsloftsins og segir hann reglugerðir og stjórnvaldsákvarðanir duga skammt ef stjórnmálamenn taki ekki persónulega ábyrgð.

Brown lýsti þessum skoðunum sínum í viðtali við Sky-fréttastofuna, nokkrum dögum eftir að Tony Blair sagði að hann myndi ekki fórna þeim munaði að fara í frí hvert sem hann vildi í heiminum, þótt það þýddi aukinn útblástur flugvéla. Þá sagði hann að ekki væri hægt að setja fólki óraunhæfar kröfur.

Brown segist aftur á móti ekki fljúga "mjög mikið" út fyrir landsteinana í eigin erindagjörðum. Hann segir mikilvægt að stjórnmálamenn séu fyrirmyndir til þess að fólk sjái hvað sé hægt að gera og hvað þurfi að gera. "Maður verður að hrífa fólk með sér og þess vegna finnst mér að maður verði að sýna í gjörðum sínum að maður sé ekki einungis að gera það sem maður ætlist til þess að annað fólk geri líka, heldur einnig að það sé hægt að breyta hlutunum með þessum gjörðum," sagði Brown í viðtali við Sky-fréttastofuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×