Erlent

Sjö af hverjum tíu andvígir því að senda fleiri hermenn

Hópur fólks safnaðist saman í San Francisco til að mótmæla fjölgun hermanna í Írak í gær.
Hópur fólks safnaðist saman í San Francisco til að mótmæla fjölgun hermanna í Írak í gær. MYND/AP

Áætlanir George Bush Bandaríkjaforseta um að senda rúmlega tuttugu þúsund hermenn til viðbótar til Íraks á næstu vikum virðast ekki hafa mikinn hljómgrunn meðal bandarísks almennings ef marka má skoðanakönnun sem AP-fréttastofan gerði eftir að Bush kynnti áætlanir sínar í fyrrakvöld.

Rösklega sjö af hverjum tíu Bandaríkjamönnum eru andsnúnir því og þá telur svipað hlutfall að fjölgun bandarískra hermanna muni ekki bæta ástandið í Írak. Aðeins rúmlega þriðjungur telur nú að rétt hafi verið að ráðast inn í Írak árið 2003 en til samanburðar voru tveir þriðju á þeirri skoðun fyrir tveimur árum. Þá telja sex af hverjum tíu að ólíklegt sé að það takist að koma á stöðugleika og lýðræði í Írak.

Niðurstöðurnar eru mjög í samræmi við aðra könnun sem ABC-sjónvarpsstöðin og Washington Post gerðu eftir ræðu forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×