Erlent

Fyrrverandi Eþíópíuleiðtogi fær lífstíðarfangelsi

Mengistu var forseti Eþíópíu í 14 ár, frá 1977 til 1991.
Mengistu var forseti Eþíópíu í 14 ár, frá 1977 til 1991.

Mengistu Haile Mariam, fyrrverandi leiðtogi Eþíópíu, var fjarverandi þegar lífstíðarfangelsisdómurinn var kveðinn upp yfir honum í morgun, rétt eins og hann hefur verið fjarverandi öll réttarhöldin. Meðan Mugabe er við völd í Zimbabwe, þar sem Mengistu hefur hæli, þá mun hann ekki verða framseldur til Eþíópíu til að afplána dóminn.

Mengistu var dæmdur fyrir þjóðarmorð í heimalandi sínu fyrir rétt um mánuði síðan en refsingin var tilkynnt í dag. 11 af æðstu embættismönnum í stjórn Mengistus fengu einnig lífstíðarfangelsi en 47 aðrir fyrrum embættismenn fengu fangelsisdóma allt að 25 árum.

Meðan Mengistu var forseti Eþíópíu, frá 1977 til 1991, voru pólitískir andstæðingar hans stráfelldir í herferð sem nefnd var "Rauða hættan". Þeir sem minnsti grunur lék á að væru á móti stjórninni áttu í hættu að finnast myrtir á götum borga og bæja.

Ef heldur sem horfir mun Mengistu áfram njóta lífsins í Zimbabwe hjá vini sínum Mugabe og þannig komast hjá fangelsisdómnum á sama hátt og réttarhöldunum: in absentia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×