Erlent

Gambari hitti Suu Kyi í morgun

Ibrahim Gambari sendifulltrúi SÞ.
Ibrahim Gambari sendifulltrúi SÞ. MYND/AFP

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Mjanmar, Ibrahim Gambari, hitti í morgun leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem er í stofufangelsi. Gambari kom til Yangon stærstu borgar Mjanmar í morgun.

Diplómatar í Yangon segja að hann hafi þegar hitt Aung San Suu Kyi leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Nánari fréttir hafa ekki fengist af þeim fundi.

Gambari ræddi við herforingjana sem stjórna Mjanmar í gær í höfuðborginni Næpídav. Ekkert hefur spurst út um viðræður Gambaris við herforingjana, en líklegt er að hann hafi rætt við Tan Shwe, hershöfðingjann sem talinn er valdamestur í stjórn landsins.

Stjórnvöld í Japan sendu í dag sendifulltrúa til Mjanmar til að þrýsta á að dauði japansks myndatökumanns á miðvikudag verði rannsakaður. Á myndum af atvikinu má sjá að hermaður skaut hann af stuttu færi.

Engar áreiðanlegar tölur hafa borist af heildarfjölda látinna. Stjórnvöld segja að tíu manns hafi látið lífið í átökum undanfarinna daga en stjórnarandstæðingar segja að þeir séu miklu fleiri.

Fáir eru nú á götum Yangon og hvergi sjást munkar, sem leiddu mótmælaaðgerðirnar, enda hafa margir þeirra verið handteknir og aðrir lokaðir inni í klaustrum sínum sem eru umkringd gaddavír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×