Erlent

Hillary Clinton krefst þess að Bush mótmæli nauðgunardómi

Hillary Clinton hefur bæst í hóp þeirra sem gagnrýnt hafa yfirvöld í Sádí Arabíu í kjölfar þess að 19 ára stúlka var dæmd í fangelsi og til þess að þola 200 svipuhögg. Stúlkunni var nauðgað af hópi karlmanna en hún var dæmd fyrir að farið út úr húsi sínu án þess að vera í fylgd með karlmanni.

Stúlkunni var rænt í verslunarmiðstöð af sjö mönnum sem nauðguðu henni. Clinton kallaði dóminn hneyksli og hvatti George Bush Bandaríkjaforseta til þess að mótmæla dómnum við yfirvöld í landinu.

Clinton segir að Bush stjórnin hafi neitað að mótmæla dómnum á þeirri forsendu að um innanríkismál sé að ræða. „Ég hvet forsetann til þess að ræða við Abdullah konung og fá hann til að nema dóminn úr gildi," sagði Clinton í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×