Íslenski boltinn

Matthías Guðmundsson er leikmaður 1. umferðar

Matthías er hér í hörkubaráttu í fyrsta leik FH á tímabilinu, gegn ÍA á útivelli.
fréttablaðið/vilhelm
Matthías er hér í hörkubaráttu í fyrsta leik FH á tímabilinu, gegn ÍA á útivelli. fréttablaðið/vilhelm

Eins og venja er orðin frá fyrri Íslandsmótum mun Fréttablaðið standa fyrir vali á liði og leikmanni hverrar umferðar að henni lokinni. Í þetta sinn varð Matthías Guðmundsson, sóknarmaður FH, fyrir valinu. Hann skoraði eitt marka FH í 3-2 sigri liðsins á ÍA á útivelli í opnunarleik mótsins.

„Þetta var mjög góður sigur og erum við í skýjunum með þetta enda ekki hvaða lið sem er sem sækir sigur á Skagann," sagði Matthías.

Leikurinn fór fram í miklu roki en það virtist ekki koma niður á leiknum þar sem fimm mörk litu dagsins ljós. „Aðstæður voru erfiðar en ætli við séum ekki orðnir vanir þessu. Þetta var fimmti leikurinn í röð sem við spilum í miklu roki eftir vorleikina," sagði hann.



Hann segir það hafa verið gott fyrir sjálfstraustið að skora í sínum fyrsta deildarleik með nýju félagi. „Annars hefur mér verið afar vel tekið í FH og mér líður mjög vel þar. Þetta er flottur klúbbur með góðum leikmönnum. Boltinn sem liðið spilar hentar mér mjög vel. Mér hefur þó gengið upp og ofan á undirbúningstímabilinu og átt dapra leiki og góða. Það er ekki síst þess vegna sem ég er ánægður með að það gekk vel í fyrsta leik."

FH var spáð titlinum í öllum spám sem birtust fyrir mótið. Matthías segist þó ekki finna fyrir neinum sérstökum þrýstingi. „Allir búast við því að við séum mjög sterkir og eigum að vinna alla leiki. Ég velti þessu ekki mikið fyrir mér og reyni frekar að gera allt sem í mínu valdi stendur til að vinna leikinn."



FH fer til Keflavíkur á sunnudagskvöldið og er um toppslag að ræða því bæði liðin, ásamt Fylki, unnu sína leik í fyrstu umferðinni. Það er einnig hætt við því að leikið verður í roki, rétt eins og uppi á Skaga. Slíkt er algengt í Keflavík.

„Þetta verður hörkuleikur og Keflvíkingar sýndu að þeir eru með sterkt lið með því að vinna KR á útivelli. Eftir að hafa litið á leikina í fyrstu umferðinni sýnist mér að öll lið líti mjög vel út og séu öll betri en þau voru í fyrra. Það er ljóst að hver einasti leikur verður erfiður. Það er klisja að segja það en engu að síður satt."

eirikur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×