Erlent

Lífi blásið í hrörnuð hjónabönd

Japanskir karlmenn sem eru komnir á efri ár leita nú margir hverjir leiða til að blása lífi í hjónabandið eftir að hafa ævilangt sett eiginkonuna í annað sætið á eftir starfinu. Margir tóku þátt í „degi hinnar ástkæru eiginkonu" fyrir helgina, þar sem dagskipunin var að sinna eiginkonunum til tilbreytingar.

Skilnaðartíðni í Japan hefur aukist um meira en 60 prósent frá árinu 1985 og hefur mesta aukningin átt sér stað hjá eldra fólki. Skilnaður hjá hjónum sem hafa verið gift í meira en 20 ár hefur næstum tvöfaldast síðan árið 1985 og var fjöldinn kominn í 40.000 árið 2005.

Mun algengara er að konurnar eigi frumkvæði að skilnaðinum og skilji við menn sína eina í lok æviskeiðsins, sem er að meðaltali 78 ára langt hjá japönskum karlmönnum og eitt hið lengsta í heiminum.

Samtök tilbiðjandi eiginmanna í Japan (Japan Adoring Husbands association) urðu til vegna þessa stækkandi vandamáls. Í fyrra komu samtökin á fót deginum sem tileinkaður er ástkæru eiginkonunni, þar sem eiginmenn eru hvattir til að fara óvenju snemma heim úr vinnunni, jafnvel fyrir klukkan átta um kvöldið, líta í augun á eiginkonu sinni og segja „takk fyrir".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×