Sænskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að sænsk og norsk úrvalsdeildarfélög væri á höttunum eftir Helga Val Daníelssyni, leikmanni Öster. Hann segist jafnvel vera tilbúinn að koma heim til Íslands.
Helgi Valur hefur margoft greint frá því að hann hafi ekki áhuga á að leika í sænsku C-deildinni en hann var með betri mönnum Öster í sumar er liðið féll úr B-deildinni, Superettan.
Sjö leikmenn hafa yfirgefið Öster síðan liðið féll og nú er útlit fyrir að Helgi Valur feti í fótspor þeirra.
„Strax að tímabilinu loknu rætti ég við forráðamenn Öster og greindi þeim frá óskum mínum að ég vildi spila í betri deild en C-deildinni í Svíþjóð. Þeir sögðust hafa skilning á því og lofuðu að hlusta á tilboð frá öðrum félögum."
Fjölmiðlar í Svíþjóð segja að bæði sænskt úrvalsdeildarlið og topplið í Noregi hafi áhuga á Helga Val.
Aðspurður segist Helgi Valur jafnvel reiðubúinn að íhuga að koma heim til Íslands.
„Íslenska deildin er kannski ekki atvinnumannadeild en hún er samt í hærri gæðaflokki en bæði Superettan og C-deildin. En hvort að íslenskt félagslið hafi efni á að leysa mig undan samningnum við Öster er annað mál."