Erlent

12 slasast í sprengingu á Maldíveyjum

Múslimar biðja við mosku í Male.
Múslimar biðja við mosku í Male. MYND/AFP

Sprengja sprakk í Male höfuðborg Maldíveyja í Indlandshafi í dag með þeim afleiðingum að 12 ferðamenn slösuðust. Sprengingin varð nálægt mosku við almenningsgarðinn Sultan Park sem er vinsæll ferðamannastaður.

Talsmaður yfirvalda sagði að sprengjan hefði sprungið klukkan hálftíu að íslenskum tíma og að svo virtist sem um heimatilbúna sprengju væri að ræða. Enginn hinna slösuðu munu hafa hlotið lífshættuleg meiðsl, en tveir þeirra eru Bretar sem hlutu töluverð brunasár í sprengingunni.

Tveir Japanar og sex Kínverjar eru meðal hinna slösuðu en ekki er vitað um þjóðerni tveggja.

Vitni segist hafa séð nagla um allt í garðinum áður en svæðinu var lokað af öryggislögreglu.

Meira en 500 þúsund ferðamenn heimsóttu Maldíveyjar á síðasta ári. Landið er að mestu byggt múslimum og er þekkt fyrir friðsæld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×