Íslenski boltinn

Allra leiða leitað til að koma KR á rétta braut

Mynd/Valli

Jónas Kristinsson, formaður KR Sports, segir að stjórn félagsins leiti nú allra leiða til að leiða KR úr þeim ógöngum sem liðið er komið í eins og hann orðar það sjálfur. KR hefur einungis fengið eitt stig úr þeim sjö umferðum sem lokið er í Landsbankadeild karla það sem af er og situr langneðst á botni deildarinnar.

„Við erum staddir með bakið upp við vegg og menn eru einfaldlega að ráða sínum ráðum, sjá hvaða brögðum við getum beitt til að koma stórveldinu á réttan kjöl á nýjan leik," sagði Jónas við Fréttablaðið í gær.

Áður hefur verið greint frá því að áhrifamenn í KR eru ósammála um hvort Teitur Þórðarson, þjálfari liðsins, eigi að taka poka sinn. Jónas vildi aðspurður ekki útiloka það að Teitur yrði rekinn.

„Það eina sem ég get sagt í bili er að menn eru að meta stöðuna, það er allt og sumt."- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×