Erlent

Hundrað ára fangelsi

Félagar hins dæmda sögðu bandaríska hermenn í Írak undir gífurlegu álagi.
Félagar hins dæmda sögðu bandaríska hermenn í Írak undir gífurlegu álagi. MYND/AFP

Bandarískur herdómstóll dæmdi í gær Paul E. Cortez, 24 ára bandarískan hermann, í 100 ára fangelsi fyrir að hafa í mars á síðasta ári, ásamt fjórum félögum sínum, nauðgað 14 ára íraskri stúlku og síðan myrt bæði hana og fjölskyldu hennar.

Einn félaga hans og jafnaldri, James Barker, hefur áður hlotið 90 ára fangelsi fyrir sinn hlut í glæpunum, sem þykir eitt versta voðaverkið sem bandarískir hermenn hafa framið í Írak. Hvorugur þeirra segist þó hafa framið morðin, heldur hafi þriðji hermaðurinn, Steven D. Green, skotið bæði stúlkuna, systur hennar og foreldra á heimili þeirra í Mahmoudiya.

Að ódæðinu loknu reyndu þeir að brenna lík stúlkunnar. Þeir brenndu síðan sín eigin föt og hentu morðvopninu í skurð.

Tárin streymdu niður vanga Cortez þegar hann játaði sekt sína fyrir dómi og baðst afsökunar á gerðum sínum, sem hann sagðist ekki hafa neina skýringu á.

Fram kom í réttarhöldunum að hermennirnir hefðu verið úrvinda af þreytu og undir gífurlegu álagi.

„Þetta er ekki einsdæmi. Við höfum séð svona í öðrum stríðum,“ sagði sálfræðingur að nafni Charles Figley, sem bar vitni sem sérfræðingur. Saksóknarar sögðu álagið enga afsökun. Þrír hermannanna bíða enn réttarhalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×