Erlent

Hryðjuverkaréttarhöld hefjast í Madrid í dag

Getty Images

Í dag hefjast réttarhöld yfir 29 mönnum sem eru grunaðir um að hafa staðið að hryðjuverkaárásum á lestar í Madrid í mars 2004. 191 fórst í árásinni. Sjö hinna grunuðu eru ákærðir fyrir morð og fyrir að tilheyra hryðjuverkahópi en flestir hinna fyrir að starfa með hryðjuverkahóp og meðhöndla sprengiefni.

Meira en 1700 manns særðust í árásunum sem beint var að fjórum lestum á háannatíma í Madrid. Flestir hinna ákærðu eru frá Marokkó, þá eru nokkrir Spánverjar og menn frá Alsír, Sýrlandi og Líbanon. Sjö þeirra sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í árásinni fórust í sprengingu í Madrid í apríl 2004, nokkrum vikum eftir tilræðin og er talið að þeir hafi sprengt sjálfa sig í loft upp þar sem lögregla var að ná þeim.

Þetta eru stærstu réttarhöld sögunnar í Evrópu yfir grunuðum hryðjuverkamönnum og munu hundruð vitna koma fyrir réttinn. Þá eru ákæruskjölin um 100 þúsund blaðsíður. Viðbúnaðarstig verður hækkað á Spáni á meðan á réttarhöldunum stendur og verður auka lögreglulið víða á götum Madridar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×