Innlent

Vill slysalaust ár á sjó

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hilmar (fyrir miðju) veitir viðurkenningunni móttöku.
Hilmar (fyrir miðju) veitir viðurkenningunni móttöku.

Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna fékk viðurkenningu írskra slysavarnarsamtaka í Dublin á Írlandi. „Um er að ræða Safety Award viðurkenningu sem Sea and Shore Safety Services í Dublin veitir árlega tveimur einstaklingum eða samtökum sem stuðlað hafa að auknu öryggi meðal sjófarenda," segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.

Hilmar hlaut viðurkenninguna fyrir störf sín sem skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna og sem formaður International Association for Safety and Survival Training sem eru alþjóðasamtök öryggis- og sjóbjörgunarskóla. Hilmar hefur verið skólastjóri Slysavarnaskólans frá árinu 1991.

„Það er alltaf gott þegar menn eru mærðir, sérstaklega í þessu tilfelli þar sem ég get litið svo á að viðurkenningin nái til allra starfsmanna Slysavarnarskóla sjómanna," sagði Hilmar þegar Vísir sló á þráðinn til hans.

Hilmar er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur þessa viðurkenningu og jafnframt fyrsti íbúinn utan Stóra-Bretlands til að hljóta hana. Hann ætlar að halda áfram að vinna að slysavarnarmálum. „Það er ekkert fararsnið á mér. Ég vil upplifa slysalaust ár á sjó og trúi því að við getum náð því," segir Hilmar en bendir á að til þess þurfi að breyta viðhorfi sjómanna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×