Fótbolti

Hafa ávallt komist yfir á Råsunda

nordic photos/afp

Íslenska landsliðið hefur spilað vel í tveimur heimsóknum sínum á Råsunda, heimavöll AIK í Solna í Stokkhólmi. Leikurinn á miðvikudaginn verður sá þriðji í röðinni en hinir tveir enduðu með 1-1 jafntefli 1995 og með 1-3 tapi tíu árum síðar. Þetta eru alls ekki slæm úrslit, ekki síst fyrir þær sakir að íslenska liðið hefur tapað síðustu þremur heimaleikjum sínum á móti Svíum með markatölunni 2-7.

Ísland lék sinn fyrsta leik á Råsunda í undankeppni EM 1996 en þjóðirnar mættust þá 1. júní 1995 á Råsunda. Þetta var fjórði leikur Íslands af átta í riðlakeppninni. Svíar höfðu náð í brons á HM í Bandaríkjunum sumarið á undan og unnið 1-0 sigur í fyrri leiknum sem fram fór á Laugardalsvellinum í september árið á undan. Leikurinn byrjaði frábærlega þegar Arnar Gunnlaugsson skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu eftir aðeins þriggja mínútna leik. Svíar náðu reyndar að jafna leikinn úr vafasamri vítaspyrnu þrettán mínútum síðar en íslenska vörnin hélt út og jafnteflið er ein bestu úrslit íslenska landsliðsins á útivelli í sögu Evrópukeppninnar. Stigin tvö sem Svíar sáu eftir spiluðu líka rullu í að Svíar komust ekki í úrslitakeppnina.

Þjóðirnar mættust aftur á Råsunda rúmum tíu árum seinna eða nákvæmlega 12. október 2005 í lokaleik Íslands í undankeppni HM 2006. Svíar voru í harðri baráttu við Króata um sigur í riðlinum en komust á endanum beint á HM vegna góðs árangurs í 2. sæti. Leikurinn byrjaði á svipaðan hátt og áratug áður því Kári Árnason kom íslenska liðinu yfir á 25. mínútu leiksins. Það tók Svía nú aðeins fjórar mínútur að jafna leikinn og var þar að verki snillingurinn Zlatan Ibrahimovic, sem lagði einnig upp annað mark Svía sem Henrik Larsson skoraði rétt fyrir hálfleik. Svíar skoruðu síðan þriðja markið í blálokin og tryggðu sér 3-1 sigur.

Råsunda er sögulegur leik­vangur því aðeins einn annar völlur hefur hýst bæði úrslitaleik karla og kvenna á HM. Sá völlur er Rósarskálin í Pasadena í Kaliforníu í Bandaríkjunum (karlar 1994 og konur 1999). Úrslitaleikur kvenna fór fram á Råsunda-leikvanginum 1995 en 37 árum áður hafði Pele, þá 17 ára, breytt knattspyrnusögunni á vellinum með því að skora tvö mörk í 5-2 sigri Brasilíumanna á Svíum í úrslitaleik karla. Þetta var fyrsti heimsmeistaratitill Brasilíu.

Þetta gæti orðið síðasti landsleikur Íslands á vellinum því Svíar eru að byggja sér nýjan fimmtíu þúsund manna völl í Solna og í kjölfarið verður Råsunda-völlurinn rifinn. Nýi völlurinn ætti að verða tilbúinn upp úr árinu 2010 en þangað til er Råsunda heimavöllur sænska landsliðsins og þar bíður íslenska liðsins erfitt verkefni á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×