Erlent

Baráttan við alnæmi er að tapast

Heimurinn er að tapa baráttunni við alnæmi. Þetta segir einn helsti ráðgjafi Bush Bandaríkjaforseta í alnæmismálum. Hann segir að þrátt fyrir framfarir á sviði lækninga á sjúkdómnum þá sýkist árlega mun fleiri af alnæmi en hægt sé að hjálpa. Tuttugu og fimm milljónir manna hafa látist af völdum alnæmis í heiminum.

Anthony Fauci, sem er einn helsti ráðgjafi Bush í alnæmismálum, tekur situr nú ráðstefnu í Ástralíu ásamt fimm þúsund sérfræðingum í sjúkdómnum frá yfir eitt hundrað og þrjátíu löndum.

Í erindi sem hann hélt á ráðstefnunni sagði hann heiminn vera að tapa baráttunni við alnæmi. Þrátt fyrir að framfarir í lækningum á sjúkdómnum sýktust fleiri af alnæmi en hægt væri að veita viðeigandi meðferð. Fyrir hvern einstakling sem greinist með alnæmi og fær viðeigandi meðferð sýkist sex aðrir.

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá því að á síðasta ári hafi 2,2 milljónir einstaklinga sem greinst hafi með alnæmi í þróunarlöndunum fengið meðferð gegn vírusnum sem er töluvert meira en fyrir þremur árum.

Tuttugu og fimm milljónir manna hafa látið lífið af völdum alnæmis en talið er að fjöldi þeirra sem er með alnæmi muni fara úr fjörtíu milljónum í sextíu á næstu átta árunum.

Fauci sagði á ráðstefnunni að þrátt fyrir mikinn árangur í aðgengi að lyfjum væri nauðsynlegt að grípa til róttækari fyrirbyggjandi aðgerða. Stór hluti þeirra sem þurfi á forvörnum að halda hafi ekki aðgang þeim forvarnartækjum sem sannað hafi gildi sitt.

Utanríkisráðherra Ástrala tilkynnti í tengslum við ráðstefnuna að Ástralar hygðust auka fjármagn sem þeir setja í baráttuna gegn alnæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×