Erlent

Létu innbrotsþjófinn taka til

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
MYND/Getty Images

Hjón í Bandaríkjunum vissu nákvæmlega hvað þau áttu að gera við innbrotsþjóf sem þau gripu glóðvolgan þar sem hann gekk ránshendi um heimili þeirra. Þau miðuðu á hann byssu á meðan þau létu hann skila mununum og þrífa eftir sig.

Adrian og Tiffany McKinnon voru að koma úr vikuferðalagi þegar þau komu að heimili sínu nálægt Montgomery í Alabama í rúst. Tiffany var miður sín og maður hennar ráðlagði henni að fara til systur sinnar á meðan hann athugaði hvaða munir hefðu verið teknir.

En þegar hann gekk inn í næsta herbergi mætti hann þjófnum, sem var með hatt Adrians á höfðinu. Húsbóndinn beindi byssu að höfði hans og lét hann sitja þar til hann ákvað hvað hann ætti að gera. Þar næst lét hann Tajuan Bullock þrífa eftir sig dót sem hann hafði hent á gólfið úr skúffum og hillum.

Þegar lögreglan kom á vettvang beið þeirra óvænt yfirlýsing. Þjófurinn kvartaði yfir því að hafa þurft að þrífa heimilið á meðan honum var ógnað með byssu.

Lögreglan mun að sögn húsbóndans hafa hlegið af þjófnum og sagt að flestir aðrir hefðu líklega skotið hann til bana. Bullock var handtekinn fyrir þjófnað og innbrot.

Vanalega eru innbrotsþjófar fljótir að athafna sig inni á heimilum fólks þegar það er fjarverandi, og koma svo þýfinu eins fljótt og mögulegt er í verð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×