Erlent

Víða uppskerubrestur vegna hitabylgju

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Á meðan flóð hrjá suma íbúa jarðarkringlunnar, eru íbúar í suðausturhluta Evrópu í svitakófi vegna mikillar hitabylgju þar síðustu daga. Skógareldar geisa víða og dæmi eru um að ferðamenn hafi verið sendir heim vegna þeirra.

Ekkert lát er á hitabylgjunni í Evrópu sem fór vel yfir fjörtíu gráður víða í dag. 500 manns hafa látist af þeirra völdum í Ungverjalandi og Í Rúmeníu var tilkynnt um 27 dauðsföll af völdum hitanna í þessari viku. Búist er við áframhaldandi hitum í suður- og austurhluta landsins á morgun, en í vesturhluta Rúmeníu varð úrhellisrigning í dag.

Að minnsta kosti tvö þúsund skógareldar hafa verið tilkynntir til yfirvalda í Serbíu á síðustu fimm dögum. Barist er við útbreiðslu eldanna, en heitir vindar tefja slökkvistarf. Rússneskar flugvélar hafa hjálpað til við slökkvistarfið við Zavoj vatn. Í gær náðu hitatölur um 45 gráðum, en íbúum létti í dag þegar hitastig lækkaði niður í fimmtán gráður.

Á Ítalíu er grunur um að brennuvargar hafi komið einhverjum skógareldum af stað, en þar var barist við 50 skógarelda í dag. Á Gargano skaga á suðurhluta Ítalíu flýðu um þrjú þúsund ferðamenn og íbúar niður á strönd undan eldunum. Björgunarsveitir komu fólkinu í neyðarskýli vegna eldanna, en gripið hefur verið til þess ráðs að senda ferðamenn til síns heima vegna ástandsins.

Skógareldar geisuðu einnig í Tyrklandi. En Í Istanbul var hitinn um 40 gráður í dag sem er 11 gráðum yfir meðaltali í júlí. Íbúar Istanbul syntu í Bosphorus sundi til að kæla sig í hitunum. Embættismenn í stærstu borgum landsins eins og Izmir hafa ákveðið að gefa barnshafandi konum og eldri borgurum leyfi frá vinnu á meðan hitarnir eru sem mestir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×