Erlent

Þriggja daga leifturárás

George W. Bush
George W. Bush

Bandaríkjaher hefur sett saman ítarlega hernaðaráætlun um öflugar loft­árásir á Íran. Hugmyndin er sú að eyðileggja hernaðarmátt Írana á aðeins þremur dögum.

Þetta fullyrðir breska blaðið The Sunday Times í gær og vitnar í bandaríska hernaðar­sérfæðinginn Alexis Debat, sem starfar hjá Nixon-miðstöðinni í Washington og er sér­fræðingur þar í hryðjuverkavörnum og þjóðar­öryggismálum.

Blaðið segist hafa heimildir fyrir því að George W. Bush Bandaríkjaforseti hafi undan­farið lagt aukna áherslu á að afla stuðnings innan Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna við aðgerðir gegn Íran.

Times segist einnig hafa heimildir fyrir því að ráðamenn í Bandaríkjunum telji hentugast að árás á Íran verði snögg og öflug, ef til þess komi að beita þurfi hervaldi.

Í ræðu sem Bush flutti í síðustu viku sagði hann athæfi Írana ógna „öryggi þjóða alls staðar. Þess vegna eru Bandaríkin að hóa saman vinum og bandamönnum víða um heim til að einangra Íransstjórn og koma á efnahagslegum refsiaðgerðum. Við munum takast á við hættuna áður en það verður of seint.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×