Erlent

Búfénaði slátrað á þriðja búinu

Ákveðið hefur verið að slátra búfénaði á þriðja nautgripabúinu í Surrey í Englandi þar sem grunur leikur á að gin- og klaufaveiki hafi borist þangað. Verið er að rannsaka hvort veiran hafi borist á býlin af mannavöldum.

Nautgripabúið er við hlið býlis þar sem veikin hafði áður greinst. Þrátt fyrir þessa ákvörðun hefur breska ríkisstjórnin ákveðið að slaka á banni við búfjárflutningum á býlum utan sóttvarnarsvæðisins í Surrey frá og með miðnætti. Einnig hefur verið ákveðið að leyfa bændum að flytja búfénað til slátrunar á ný en þó að uppfylltum ströngum skilyrðum.

Sérfræðingar segja að veiran sem nú hafi fundist í dýrunum sé á margan hátt ólík þeirri sem greinst hafi í dýrum á svæðinu á síðustu árum. Hún sé líkari veiru sem notuð er til að búa til bóluefni gegn gin- og klaufaveiki. Því beinist rannsóknin meðal annars að því hvort að veiran hafi borist frá annarri tveggja rannsóknarstofa sem eru í grennd við býlið þar sem veiran greindist fyrst.

Bæði er verið að kanna hvort búfénaður hafi vísvitandi verið smitaður eða hvort starfsmenn á rannsóknarstofunum hafi borið veiruna með sér á búið fyrir slysni.

Breska ríkisstjórnin hefur í samráði við Evrópusambandið bannað alla flutninga á lifandi búfé frá Englandi, Skotlandi og Wales.

Gin- og klaufaveiki er afar smitandi og leggst á klaufdýr - nautgripi, sauðfé, svín og geitur. Árið 2001 braust út gin- og klaufaveikisfaraldur í Bretalandi og þurfti þá að slátra á áttundu milljón dýra í þúsundum bæja. Yfirvöld þá voru gagnrýnd fyrir að bregðast hægt við. Viðbrögðin nú hafa verið mun hraðari en ljóst er að tjón vegna veikinnar nemur allt að milljarði íslenskra króna á viku.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×