Erlent

Allir vilja breytingar nema Bush

Ríkisstjórnir um allan heim segja brýnt að bregðast snarlega við til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir að svört skýrsla sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna birtist í gær. Ekki þó George Bush Bandaríkjaforseti sem hyggst ekki gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar þrátt fyrir þær hörmungar sem boðaðar eru í skýrslunni ef ekkert verður að gert.

Í skýrslunni, sem á þriðja þúsund vísindamanna frá 113 ríkjum unnu, segir að 90 prósenta líkur séu á að loftslagsbreytingarnar séu af manna völdum og hafi meðal annars valdið færri köldum dögum, heitari nóttum, mannskæðum hitabylgjum, flóðum, úrhellisrigningum, hrikalegum þurrkum. Þá er boðað að hitastig árið 2100 verði þremur gráðum hærra en nú og yfirborð sjávar hækki um 28-43 sentímetra.

Evrópusambandið segir þetta sterkustu viðvörun sem menn hafa fengið til þessa. Bresk yfirvöld segja breytingarnar ógna friði og velsæld heimsbyggðarinnar. Bandarísk stjórnvöld segja skýrsluna mikilvæga en vilja ekkert aðhafast. Orkumálaráðherra Bandaríkjanna segir Bandaríkin hafa „fjárfest meira í rannsóknum á loftslagsbreytingum en öll önnur ríki samanlagt."

Umhverfismálastjóri Evrópusambandsins, Stavros Dimas, segir að aldrei hafi verið brýnna en nú að alþjóðasamfélagið setjist niður og ræði í fullri alvöru hvernig ná megi alþjóðlegu samkomulagi um stöðvun hnattrænnar hlýnunar. Umhverfisráðherra Suður-Afríku segir óverjandi ef menn bregðast ekki við.

Ekki hefur náðst í Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×