Erlent

Kanna hvort íkveikjur teljist hryðjuverk

Gríðarlega margir slökkviliðsmenn hafa unnið að því að halda skógareldunum í Grikklandi í skefjum.
Gríðarlega margir slökkviliðsmenn hafa unnið að því að halda skógareldunum í Grikklandi í skefjum. AFP

Meira en 60 manns hafa látið lífið í skógareldunum í Grikklandi síðan á föstudag. Grunur leikur á að sumir eldarnir stafi af íkveikjum og hafa nokkrir menn verið handteknir, flestir sakaðir um að hafa kveikt í af gáleysi.

Einn hefur þó verið ákærður fyrir íkveikju og morð í tengslum við bruna á föstudaginn í borginni Aeropolis, þar sem sex manns létust.

Í gær hóf Dmitris Papangelopoulos saksóknari rannsókn á því hvort „glæpir brennuvarga og þær íkveikjuárásir sem framdar hafa verið sumarið 2007“ falli undir lög um hryðjuverkavarnir, en þá fengju lögregluyfirvöld víðtækari heimildir til að rannsaka og handtaka grunaða íkveikjumenn.

Á sunnudaginn bauð ríkisstjórn Grikklands að veita verðlaun, sem nema einni milljón evra, hverjum þeim sem kemur með upplýsingar sem leiða til handtöku brennuvarga.

Skógareldar urðu einnig í Grikklandi fyrr í sumar, en eldarnir núna eru þeir alverstu í manna minnum.

Úti um allt Grikkland, allt frá Evros í norðri til eyjanna Korfu og Kefaloníu í vestri og allt suður á Pelópsskaga hefur mátt sjá gamla sem unga grípa garðslöngur, vatnsfötur og trjágreinar til að berja niður eldtungurnar í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga húsunum sínum.

Í þorpinu Artemida á vestanverðum Pelópsskaga dó kona ásamt fjórum börnum sínum. Þau hefðu bjargast ef þau hefðu haldið sig heima, því húsið þeirra var eina húsið sem stóð eftir óskemmt þegar eldurinn hafði farið hamförum um þorpið.

„Þetta er gríðarlegt umhverfisslys,“ segir Theodota Nantsou hjá Alþjóðanáttúruverndarsjóðnum WWF. „Við höfum þessa eldfimu blöndu af óhagstæðum veðurskilyrðum, stráþurra skóga – svo annað eins hefur ekki sést árum saman – og svo hamslausir vindar síðustu tvær vikurnar. Þetta er uppskrift að bruna landsins alls.“

Eldarnir hafa vakið mikla reiði í Grikklandi og verða væntanlega eitt helsta hitamálið fyrir þingkosningarnar 16. september næstkomandi. Margir saka stjórnvöld um að hafa ekki brugðist nógu hratt við.

Skógareldar hafa einnig geisað í sunnanverðri Búlgaríu og fórust þar tveir menn um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×