Íslenski boltinn

Blikar ósáttir við aganefndi KSÍ

Prince Linval Reuben Mathilda hefur verið í sviðsljósinu með Blikum í sumar
Prince Linval Reuben Mathilda hefur verið í sviðsljósinu með Blikum í sumar

Knattspyrnudeild Breiðabliks gaf í dag út yfirlýsingu vegna úrskurðar aganefndar KSÍ í tengslum við leikbönn sem þeir Tryggvi Guðmundsson hjá FH og Valur Fannar Gíslason hjá Fylki fengu í kjölfar handalögmála sinna í leik á dögunum. Þykir Blikum vera ósamræmi í úrskurðum aganefndar, sem dæmdi leikmann liðsins í tveggja leikja bann vegna brots í leik liðsins gegn Fylki í síðasta mánuði.

Blikar hafa ritað aganefnd KSÍ bréf þar sem þess er krafist að nefndin geri grein fyrir því hvernig standi á því að þetta misræmi sé í úrskurðum nefndarinnar í þessum tveimur málum. Hér fyrir neðan er afrit af bréfi formanns knattspyrnudeildar Breiðabliks.

"Knattspyrnudeild Breðabliks er forviða á nýlegum úrskurði Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ þar sem Tryggvi Guðmundsson, leikmaður FH, og Valur Fannar Gíslason, leikmaður Fylkis, fengu báðir leikbann í einn leik eftir að hafa átt í handalögmálum og fengið rauða spjaldið í leik liðanna þann 10. júní síðastliðinn í Landsbankadeild karla. Myndatökuvélar náðu góðum myndum af umræddum handalögmálum og var ásetningur leikmannana að slá hvorn annan augljós.

Knattspyrnudeildin gerir í sjálfu sér ekki athugasemd við lengd bannsins sem leikmennnirnir fengu heldur við alvarlegt ósamræmi í úrskurðum Aga- og úrskurðarnefndar í ljósi úrskurðar nefndarinnar eftir að leikmaður Breiðablik, Prince Linval Reuben Mathilda, var rekinn af velli í leik gegn Fylki í Landsbankadeild karla þann 13. maí síðastliðinn.

Myndatökuvélar náðu ekki að mynda atvikið, og fáir blikar urðu vitni að því, en dómarinn rak leikmanninn af velli fyrir að hafa sett hönd í andlit leikmanns Fylkis. Knattspyrnudeild Breiðabliks er ekki sammála því að það atvik hafi verið alvarlegra en fyrrnefnd atvik í leik FH og Fylkis. Reyndar er hún þeirra skoðunar að það hafi verið léttvægara. Þrátt fyrir það fékk leikmaður Breiðabliks tveggja leikja bann en hinir eins leikja bann.

Knattspyrnudeild Breiðabliks er sem fyrr segir forviða á ósamræmi í fyrrnefndum úrskurðum og óskar eftir formlegum rökstuðningi Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ á því hvers vegna leikmaður Breiðabliks fékk tveggja leikja bann en leikmenn FH og Fylkis fengu einungis bann í einn leik."

Einar Kristján Jónsson

Formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Formaður meistaraflokksráðs Breiðabliks, Ólafur Björnsson, skrifar harðorðan pistil inn á síðu félagsins Blikar.is í dag, þar sem hann tjáir sig um þetta sama mál. Lestu pistil Ólafs hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×