Íslenski boltinn

Ósætti um Teit innan raða KR

Teitur segir að langtímavinnan komi til með að skila KR árangri.
Teitur segir að langtímavinnan komi til með að skila KR árangri. fréttablaðið/valli

Samkvæmt afar áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins eru margir áhrifamanna innan raða KR síst sáttir við störf Teits Þórðarsonar, þjálfara meistaraflokks karla. Sumir eru á þeirri skoðun að skipta þurfi um þjálfara og að það sé orðið tímabært fyrir löngu. Ekki náðist í Jónas Kristinsson, formann KR Sports, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.



Þessar sömu heimildir herma einnig að búið væri að skipta út þjálfaranum ef einhver annar álitlegur kostur væri í stöðunni. Þeir þjálfarar sem eru á lausu í dag þykja hins vegar ekki nógu góðir til að snúa við gengi KR.

Sjálfur sagði Teitur í gær að hann vissi ekki til þess að nein slík umræða væri innan KR. „Ég hef ekki rætt við stjórnina samankomna en ég hef rætt við marga stjórnarmenn. Ég veit ekki til þess að stjórnin hafi neitt fundað í dag," sagði hann.



„Við getum allir verið óánægðir með úrslitin en á meðan að menn vinna vel saman þá vinnum við okkur út úr þessu. Við erum staðráðnir í að gera það."

Hann segir að það myndi ekki hjálpa liðinu að skipta um þjálfara nú. „Það er sýnt og sannað í hvaða liði sem er í heiminum að það er langtímavinnan sem skilar árangri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×