Íslenski boltinn

Var aldrei ætlunin að slá mann í andlitið

Ólafur Ragnarsson, dómari leiks FH og Fylkis, gaf þeim Tryggva Guðmundssyni og Val Fannari Gíslasyni rautt spjald í leiknum.
Ólafur Ragnarsson, dómari leiks FH og Fylkis, gaf þeim Tryggva Guðmundssyni og Val Fannari Gíslasyni rautt spjald í leiknum. fréttablaðið/vilhelm

Aganefnd KSÍ felldi í gær þann dóm að þeir Tryggvi Guðmundsson úr FH og Fylkismaðurinn Valur Fannar Gíslason skyldu fá eins leiks bann fyrir rauða spjaldið sem þeir fengu í leik liðanna um helgina.

Tryggvi og Valur Fannar áttu fremur hörð samskipti sem lauk með því að báðir féllu þeir í jörðina. Þeir höfðu ekki frétt af úrskurðinum þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða og voru báðir vitaskuld fegnir því að fá ekki tveggja leikja bann.

Valur Fannar gekkst við því að hafa slegið Tryggva í andlitið. „Það var þó aldrei ætlunin að kýla neinn þó það hafi litið þannig út. Það er aldrei vilji manns að lemja annan leikmann. Maður vill oft óvart fara upp með höndina en ásetningur var aldrei til staðar."

Hann efast líka um að það hafi verið ásetningur Tryggva að ýta við sér. „Það fer vel á milli okkar og verður enginn eftirmáli af þessu. En ég tek þetta á mig."

Tryggvi sagðist hafa óttast að fá tveggja leikja bann en fannst þó að Valur Fannar hafi sloppið vel með sína refsingu.

„Ég vil meina að það sé munur á því að ýta og slá. Ég ýtti og hann sló. Að sama skapi er svo sem ágætt fyrir báða aðila að fá eins leiks bann. Þarna var um að ræða tvo reynslumikla leikmenn sem misstu sig í ruglinu. Slíkt á auðvitað ekki að gerast."

Viðbrögð þeirra beggja virtust eilítið ýkt í sjónvarpsupptökum af atvikinu en Tryggvi segir fyrir sitt leiti að um engan leikaraskap hefði verið að ræða. „Þegar ég sá þetta í sjónvarpinu hugsaði með mér að þetta hafi litið út eins og dýfa. En málið er nú það að ég hef mjög sjaldan verið sleginn í andlitið, hvorki innan vallar né utan. Ég fékk þarna einn á trantinn og krossbrá við það. Viðbrögðin voru eftir því."

Hann segir þó að Valur Fannar hafi sýnt ákveðin klókindi við þessar aðstæður. „Hann vissi að hann var búinn að koma sér í klípu og lét sig því detta í leiðinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×