Fótbolti

Liechtenstein er eina liðið sem hefur tapað fyrir San Marínó

Benjamin Fischer kemur sínum mönnum í Liechtenstein 1-0 yfir gegn Portúgal á útivelli árið 2005. Portúgal rétt marði sigur í leiknum, 2-1.
Benjamin Fischer kemur sínum mönnum í Liechtenstein 1-0 yfir gegn Portúgal á útivelli árið 2005. Portúgal rétt marði sigur í leiknum, 2-1. AFP

Knattspyrnulandslið Liechten­stein er ekki nema rétt rúmlega 25 ára gamalt en liðið lék sinn fyrsta leik við Möltu árið 1981. Þá náði liðið jafntefli en það er ef til vill lýsandi að það er það eina sem hefur nokkru sinni tapað fyrir San Marínó, öðru smáríki í Evrópu.



Sá leikur var vináttulandsleikur sem fór fram hinn 28. apríl árið 2004. Versta tap liðsins kom árið 1996 en þá fór lið Makedóníu illa með Liechtenstein og vann 11-1.  Liðið hefur þó unnið sína sigra líka og nýjasta dæmið er 1-0 sigur á Lettlandi í undankeppninni sem nú er í gangi. Þar með hefur liðið unnið jafn marga leiki og það íslenska í riðlinum. Ísland er þó með betri markatölu.



Stærsti sigur Liechtenstein til þessa kom gegn Lúxemborg sem þó hefur fjórtán sinnum fleiri íbúa og talsvert fleiri en Ísland. Sá leikur vannst 4-0 en hann var leikinn í október árið 2004, í undan­keppni HM 2006.

Fjórum dögum áður vakti lið Liechtenstein jafnvel enn meiri athygli á sér þegar það náði 2-2 jafntefli gegn stórliði Portúgals á heimavelli. Í síðari leiknum, í Portúgal, komst Liechtenstein yfir en tapaði á endanum, 2-1.

Fyrir jafnteflisleikinn við Portúgal hafði liðið tapað öllum sínum tuttugu leikjum í undankeppni HM, þar af tveimur gegn Íslandi en þeir leikir fóru fram árið 1997.- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×