Erlent

Vaxandi kókaínneysla í Evrópu

Fíkniefnastofnun Evrópusambandsins, EMCDDA, telur að meiri stöðugleiki sé að komast á í fíkniefnanotkun í Evrópu eftir áratug sem hefur einkennst af stöðugri fjölgun fíkniefnaneytenda. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu stofnunarinnar sem birt var í dag.

Þar segir að útlit sé fyrir að dregið hafi úr notkun heróíns og sömuleiðis notkun eiturlyfja með sprautum. Þá sé ekki vöxtur í notkun kannabisefna en þó neyta um þjár milljónir Evrópubúa kannabis daglega.

Hins vegar virðist kókaínneysla aukast en um 4,5 milljónir Evrópubúa neyttu kókaíns í fyrra samkvæmt skýrslunni. Þeim sem sýktust af HIV með notkun sprautna fjölgaði um 3500 árið 2005 og telur Fíkniefnastofnunin að um 200 þúsund manns sem þannig er komið fyrir séu nú á lífi. Þá sýnir skýrslan að á bilinu sjö og átta þúsund manns látast árlega af völdum of stórra eiturlyfjaskammta og ekkert virðist draga úr slíkum dauðsföllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×