Fótbolti

Fá mörk í síðustu opnunarleikjum

Atli Viðar Björnsson skorar hér eina markið í síðasta sérstaka opnnunarleik Landsbankadeildar karla sem var árið 2004.
Atli Viðar Björnsson skorar hér eina markið í síðasta sérstaka opnnunarleik Landsbankadeildar karla sem var árið 2004. MYND/Vilhelm

Landsbankadeild karla hefst í dag með leik ÍA og FH upp á Akranesi. Þetta verður sautjánda sinn sem deildin opnar með sérstökum leik síðan að hún innihélt fyrst tíu lið sumarið 1977. Mótið hefur byrjað á fleirum en einum leik í fjögur af síðustu fimm skiptum en á árunum 1991 til 2001 var sérstakur opunarleikur á níu af ellefu tímabilum.

Það má ekki búast við neinni markaveislu ef marka má úrslit síðustu fjögurra opnunarleikja en í þeim litu aðeins þrjú mörk dagsins ljós á 360 mínútum sem gerir mark á aðeins 120 mínútna fresti.

FH vann KR á KR-vellinum 1-0 2004, Fylkir vann KR 1-0 á Fylkisvellinum 2001, Stjarnan og Grindavík gerðu markalaust jafntefli í Garðabæ 2000 og þá vann KR 1-0 sigur á KR-vellinum 1999 þar sem eina mark leiksins kom eftir aðeins 17 sekúndna leik.

Áhorfendur á Akranesvelli vonast örugglega eftir að leikmenn verði ekki alltof varkárir og bjóði upp á fleiri mörk í dag.

Það hafa reyndar verið opnunarleikir fullir af mörkum, Þróttur og ÍBV gerðu 3-3 jafntefli á Laugardalsvellinum 1998, Víkingur vann FH 4-2 í Kaplakrika 1991 og KR vann Þrótt 4-3 á KR-vellinum 1985.

Mörkin eru alls 47 í leikjunum 16 sem gerir 2,9 mörk að meðaltali, heimaliðin hafa aðeins unnið 7 af leikjunum 16 og Íslandsmeistarar eiga enn eftir að vinna opunarleik í titilvörn en KR tapaði 1-0 2001 og ÍBV gerði 3-3 jafntefli þremur árum áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×