Erlent

Smáþjóðir smærri utan ESB

Segir flestar þjóðir ESB smáar og það mikilvæga sé að fá sæti við borðið.
fréttablaðið/anton
Segir flestar þjóðir ESB smáar og það mikilvæga sé að fá sæti við borðið. fréttablaðið/anton

„Noregur og Ísland eru smáþjóðir og munu alltaf verða smáþjóðir. En þær verða minni þegar þær eru fyrir utan Evrópusambandið,“ sagði Erik Moen, framkvæmdastjóri Alþjóðasambands hægriflokka (IDU), á hádegisverðarfundi Heimdallar og Evrópusamtakanna á dögunum þar sem rætt var um hvort hægrimenn ættu erindi í ESB.

Moen talaði á fundinum sem fulltrúi norska Hægri flokksins, sem er fylgjandi aðild Noregs að ESB. Ræddi hann meðal annars um aukið vægi ESB í alþjóðakerfinu og sagði sambandið vera í auknum mæli samnefnara Evrópu í huga fólks.

Að mati Moen er ólíklegt að spurning um aðild verði formlega tekin fyrir á næstunni í Noregi nema skoðanakannanir bendi til skýrs vilja almennings, þar sem dýrkeypt yrði ef aðild yrði hafnað í þriðja skiptið. Áður gerðist það árin 1972 og 1994.

Mikilvæg breyting hefur þó að sögn Moen orðið í Noregi á afstöðu til ESB, sem kemur fram í nýrri þverpólitískri þingskýrslu um mikilvægi ESB fyrir Noreg. Segir Moen að flestir stjórnmálaskýrendur hafi verið sammála um mikilvægi þessarar nýju skilgreiningar.

Moen kvaðst bjartsýnn á að Noregur yrði meðlimur í ESB fljótlega eftir árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×