Erlent

Sýnir hve langt hefur miðað

Condoleezza Rice Segir stutt þangað til að kynþáttur hindri engan lengur í að verða forseti Bandaríkjanna.
Condoleezza Rice Segir stutt þangað til að kynþáttur hindri engan lengur í að verða forseti Bandaríkjanna. MYNS/AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir forsetaframboð Baracks Obama ótvírætt merki um það hve þróunin í Bandaríkjunum er komin langt á veg.

Bæði eru þau Rice og Obama dökk á hörund. Obama er fyrsti blökkumaðurinn sem þykir eiga raunhæfan möguleika á að verða kosinn forseti Bandaríkjanna, en Rice er fyrsta þeldökka konan sem setið hefur í embætti utanríkisráðherra.

Í viðtalinu benti hún á, að sitji hún út kjörtímabilið þá hafi hvítur karlmaður ekki gegnt þessu embætti í tólf ár, því á undan henni hafi verið svartur karlmaður, Colin Powell, og þar á undan hvít kona, Madeleine Albright.

„Þetta segir töluvert um það hve langt hefur þokast hér í landi,“ sagði hún, en tók jafnframt fram að kynþátturinn skipti enn máli.

Þau Rice og Obama starfa töluvert saman í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar, þar sem Obama á sæti.

„Hann er í nefndinni minni og við höfum alltaf átt mjög góð samskipti. Mér finnst hann vera stórkostleg persóna,“ sagði hún.

Hún neitaði hins vegar að svara því hvort hún teldi hann hafa nægilega mikla reynslu, og einkum þá í utanríkismálum, til að verða forseti.

„Bandaríska þjóðin verður að meta það,“ sagði Rice og lagði áherslu á að bandaríska þjóðin ætti lokaorðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×