Erlent

Sjónvarpið hættulegt heilsu barna

Börn við sjónvarpsskjáinn. Breskur sálfræðingur segir það algert ábyrgðarleysi foreldra að leyfa börnum að horfa mikið á sjónvarp.
Börn við sjónvarpsskjáinn. Breskur sálfræðingur segir það algert ábyrgðarleysi foreldra að leyfa börnum að horfa mikið á sjónvarp. MYND/AP

Breski sálfræðingurinn Aric Sigman heldur því fram að of mikið sjónvarpsgláp geti valdið bæði nærsýni og svefntruflunum, raskað hormónastarfsemi og aukið líkur á krabbameini.

Enn fremur segir hann tengsl geta verið milli sjónvarpsgláps og athyglisbrests, einhverfu, Alzheimersjúkdómsins, auk þess sem hann segir vísbendingar um að sjónvarpsgláp valdi því að börn verði fyrr kynþroska en ella. Þá segir hann of mikið sjónvarpsgláp hægja á efnaskiptum sem tengjast bæði offitu og sykursýki.

Þessar fullyrðingar byggir hann á ítarlegri könnun sem hann hefur gert á meira en þrjátíu rannsóknum annarra vísindamanna, sem þeir hafa gert á sjónvarpsglápi og tölvunotkun.

Um þessa rannsókn Sigmans er víða fjallað í breskum fjölmiðlum þessa vikuna, en grein eftir hann sjálfan um málið verður birt á vefsíðu breska líffræðitímaritsins Biologist á föstudaginn.

Við sex ára aldur hafa bresk börn að meðaltali samtals horft á sjónvarps- eða tölvuskjá í eitt ár samfleytt, og þegar fólk er orðið 75 ára hefur það að meðaltali varið 12 árum fyrir framan skjáinn.

„Að leyfa börnum að halda áfram að horfa svona mikið á skjámiðla er afsal foreldra á ábyrgð sinni,“ er haft eftir Sigman í nokkrum breskum fjölmiðlum í gær.

Sigman gefur foreldrum þau ráð að láta börn sem eru yngri en þriggja ára aldrei horfa á sjónvarp, og að börn á aldrinum þriggja til fimm ára fái ekki að horfa á sjónvarp nema í hálftíma á dag hið mesta. Eldri börn ættu, samkvæmt ráðum hans, ekki að horfa á sjónvarp eða nota tölvu nema í mesta lagi eina klukkustund á dag.

Sigman hefur áður skrifað bók um skaðleg áhrif sjónvarpsgláps á börn og hvatt foreldra til að setja þeim strangar skorður. Aðrir sérfræðingar hafa þó sagt tillögur hans óraunhæfar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×