Erlent

Abbas andvígur bráðabirgðalausnum

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hitti í gær Mahmoud Abbas, forseta Palestínustjórnar, í Ramallah á Vesturbakkanum og hélt síðan til Jórdaníu á fund Abdullahs konungs. Í dag ætlar hún að hitta í Jerúsalem Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels og þaðan heldur hún tilEgyptalands þar sem hún hittir Hosni Mubarak forseta.

Hún er á ferð um Mið-Austurlönd til að kynna breytingar á hernaðaráætlun Bandaríkjanna í Írak og afla stuðnings við þær.

Á fundi sínum með Abbas sagði hún Bandaríkin vilja gera sitt til að koma friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna á skrið á ný, en hafði þó fátt nýtt fram að færa og lét ekki uppi afstöðu sína til tillagna, sem aðrir hafa komið með.

Hún sagði að nú væri kominn tími til þess að „líta yfir sjóndeildarhring stjórnmálanna og byrja að sýna Palestínuþjóðinni hvernig við getum þokast í áttina að Palestínuríki.“

Að loknum fundinum sagði Abbas við blaðamenn að Palestínumenn væru andvígir öllum bráðabirgðalausnum, en á laugardaginn hafði Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, gefið það í skyn á fundi sínum með Rice að Ísraelsmenn vildu hraða einhliða áætlun sinni um að stofnað yrði Palestínuríki með bráðabirgðalandamærum á Vesturbakkanum og Gazasvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×