Erlent

Sómalskir hermenn leita uppi vopn

Herlögin geta tekið gildi um leið og forseti landsins staðfestir þau, en ekki er vitað hvenær það gerist.
Herlögin geta tekið gildi um leið og forseti landsins staðfestir þau, en ekki er vitað hvenær það gerist. MYND/AP

Hermenn stjórnarhersins í Sómalíu gengu hús úr húsi í höfuðborginni Mógadisjú í gær til að leita þar uppi vopn. Sendinefnd frá Afríkubandalaginu kom til Mógadisjú í gær í því skyni að semja um að senda friðargæsluliða til landsins.

Á laugardaginn samþykkti þing Sómalíu að leyfa ríkisstjórninni að koma á herlögum í landinu til að vernda borgara fyrir óöldinni sem ríkt hefur í suðurhluta landsins undanfarið. Samþykktin kveður á um að herlögin geti verið í gildi í þrjá mánuði og hafist þegar ríkisstjórnin ákveður svo.

Alls 154 fulltrúar þingsins kusu með tillögunni en tveir gegn henni. Aðrir fulltrúar á þinginu, sem eru 275 manns, voru fjarverandi. Herlögin geta tekið gildi eftir að forsetinn staðfestir lögin en ekki liggur fyrir hvenær hann gerir það.

Viðurkennd stjórn Sómalíu hefur undanfarið barist af hörku við íslamista sem hafði stjórnað miklu af suðurhluta landsins síðasta hálfa árið. Atkvæðagreiðslan á þinginu fór fram á sama tíma og hersveitir ríkisstjórnarinnar, ásamt eþíópískum bandamönnum, leituðu hús úr húsi að vopnum í nágrenni flugvallarins í höfuðborginni Mogadishu.

Á föstudag náði stjórnarherinn með aðstoð Eþíópíumanna yfirráðum yfir síðasta stóra vígi íslamista í landinu. Þó er búist við að bardagar haldi áfram enn um sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×