Erlent

Hafa stofnað nýjan þingflokk í Brussel

Bruno Gollnisch og Philip Claeys Gollnisch er franskur en Claeys belgískur. Á föstudaginn tilkynntu þeir um stofnun nýs þingflokks hægri-þjóðernissinna á Evrópuþinginu.
Bruno Gollnisch og Philip Claeys Gollnisch er franskur en Claeys belgískur. Á föstudaginn tilkynntu þeir um stofnun nýs þingflokks hægri-þjóðernissinna á Evrópuþinginu. MYND/AP

Innganga Búlgaríu og Rúmeníu í Evrópusambandið nú um áramótin varð til þess að á Evrópuþinginu eru þingmennirnir yst á hægri vængnum á Evrópuþinginu orðnir nógu margir til þess að geta stofnað sameiginlegan þingflokk.

Alls verða 20 þingmenn frá sjö löndum í flokknum, sem fær heitið Sjálfskennd, fullveldi og hefð. Einna þekktust í þessum hópi eru franski þjóðernissinninn Jean-Marie Le Pen, sem enn á ný er að hefja kosningabaráttu sína fyrir forsetakosningarnar í Frakklandi, og hin ítalska Alessandra Mussolini, sem er sonardóttir ítalska fasistaleiðtogans Benito Mussolini.

Formaður þingflokksins verður Bruno Gollnisch, sem gengur næstur Le Pen að völdum í frönsku Þjóðarfylkingunni. Einnig eru þrír þingmenn úr belgíska þjóðernisflokknum Vlaams Belang og einn búlgarskur þingmaður sem vakti athygli þegar hann fór niðrandi orðum um ungverskan þingmann af sígaunaættum.

Þingmenn nýja þingflokksins eiga það sameiginlegt að hafa barist gegn innflytjendum og flestir hafa verið harðir andstæðingar þess að aðildarlöndum Evrópusambandsins verði fjölgað – þótt einmitt það komi þeim nú til góða.

Með stofnun þingflokks hafa þingmennirnir tryggt sér fjármagn frá Evrópusambandinu til þess að kynna hugmyndir sínar og standa straum af kosningabaráttu, en óvíst er þó hversu langlífur þingflokkurinn verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×