Erlent

Fimm ára fangelsi

Fimm ár voru í gær liðin frá því að 20 fyrstu fangarnir komu í fangabúðirnar í herstöð Bandaríkjahers við Guantanamo-flóa á Kúbu. Í dag er næstum 400 manns haldið þar föngnum án ákæru, vegna gruns um tengsl við al-Kaída og talibana.

Fangar, sem hefur verið sleppt úr búðunum, hafa lýst því hvernig þeir voru fluttir þangað skýringalaust. Þeim var ógnað með grimmum hundum, neitað um svefn með ærandi tónlist í eyrunum tímunum saman og sumir lýstu því hvernig þeir voru fjötraðir í óþægilegum stellingum klukkutímum saman.

Nú, fimm árum síðar, hefur þessum harkalegu yfirheyrsluaðferðum verið hætt, að sögn stjórnvalda. En reiði alþjóðasamfélagsins hefur ekki horfið eins og mótmæli sem fram fóru víða um heim í gær báru vitni um. Meðal annars var mótmælt fyrir utan Guantanamo-fangelsið.

Gagnrýnendur segja tilvist fangelsisins hafa skaðað trúverðugleika Bandaríkjanna og loka beri þeim sem fyrst. En bandarísk yfirvöld segja þær mikilvægar í „stríðinu gegn hryðjuverkum“. „Við erum að halda óvinum þjóðar vorrar – óvinveittum vígamönnum, hryðjuverkamönnum ef þú vilt, frá vígvellinum,“ sagði háttsettur yfirmaður í fangelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×