Erlent

Dæmdur forseti í veislunni

Pétur Steinsen
Pétur Steinsen

Pétur Steinsen nemi er búsettur í Níkaragva og fylgdist vel með embættistöku Ortega. Hann segir mikla öryggisgæslu, steikjandi hita, spilltan stjórnmálamann og sigurvímu vinstrimanna hafa sett svip sinn á hátíðahöldin.

„Það er óhætt að segja að stemningin hafi verið þétt og góð. Fimmtán þúsund lögreglumenn og fimm þúsund hermenn gættu um 300.000 manns við athöfnina. Fólkið flykktist úr öllum áttum að torginu þar sem athöfnin fór fram. Það var ansi heitt og þetta blessaða fólk neyddist til að rölta tugþúsundum saman í steikjandi sól og bíða svo á torginu eftir að athöfnin byrjaði.“

Eftirminnilegt var að sjá Arnoldo Alemán í veislunni, segir Pétur, en Alemán var dæmdur í tuttugu ára fangelsi árið 2003 fyrir spillingu í starfi: „Það er farið að tala um það sem skandal aldarinnar að Arnoldo Alemán, fyrrverandi forseti og dæmdur glæpamaður, hafi verið við athöfnina og síðan í þinghúsinu á eftir þar sem erlendir gestir og blaðamenn hittust. Hér vill auðvitað enginn kannast við að hafa boðið honum, þar sem hann er í stofufangelsi, en hann hefur sennilega fengið tímabundið ferðafrelsi.

Þetta var vandræðalegt því hér voru erlendir gestir frá 150 löndum og það þykir skammarlegt að Alemán, sem átti upphaflega að vera kennslubókardæmi um nýja tíma í baráttunni gegn spillingu, sé svo eins og eitthvert fyrirmenni í opinberum forsetaveislum.“

Pétur segir erlendu gestina hafa vakið athygli og spurningar: „Það hefur verið bent á að við embættistökuna vantaði eiginlega jafnaðarmennina og þeir róttækustu voru mest sjáanlegir. Þetta var ofsalega mikið rautt. Erlendu gestirnir hafa orðið „þjóðnýtingu“ mjög framarlega á tungubroddinum í ræðum sínum, en Ortega sjálfur fór fínna í það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×