Erlent

Ortega snýr aftur til valda

Vinirnir Ortega og Chavez „Hjarta mitt er yfirfullt af gleði,“ sagði Hugo Chavez þegar hann fylgdist með embættistöku Daniels Ortega í Níkaragva.
Vinirnir Ortega og Chavez „Hjarta mitt er yfirfullt af gleði,“ sagði Hugo Chavez þegar hann fylgdist með embættistöku Daniels Ortega í Níkaragva. MYND/AP

Gamli byltingarmaðurinn Daniel Ortega sneri aftur til valda í Níkaragva á þriðjudaginn þegar hann tók þar við forsetaembættinu. Ortega var forseti Sandinistastjórnarinnar í Níkaragva á árunum 1985 til 1990 og mætti þá harðri andstöðu frá Bandaríkjamönnum, sem studdu baráttu hægrisinnaðra skæruliða gegn stjórn hans.

Fyrr um daginn sór einnig Hugo Chavez embættiseið í Venesúela, en hann er að hefja nýtt sex ára kjörtímabil á forsetastólnum. „Sósíalismi eða dauði,“ hrópaði Chavez við embættistöku sína, en strax að athöfn lokinni flaug hann til Níkaragva til að samfagna Ortega.

Chavez færði Ortega gullna eftirlíkingu af sverði byltingarhetjunnar Símons Bólívar og sagði hjarta sitt vera „yfirfullt af gleði“.

Viðstaddir athöfnina í Níkaragva voru einnig þeir Evo Morales, forseti Bólivíu, og Jose Ramon Machado Ventura frá Kúbu, en sökum bágrar heilsu Fídels Kastró komst hann ekki sjálfur.

Morales fagnaði því sérstaklega að fá Ortega í hóp vinstrisinnaðra þjóðarleiðtoga í Suður- og Mið-Ameríku. „Við erum með þrjá, fjóra, fimm stjórnendur sem munu frelsa Rómönsku Ameríku,“ sagði Morales.

Vaxandi vinátta milli Chavez og Ortega var augljós og strax samdægurs undirrituðu þeir samninga um náið samstarf á ýmsum sviðum. Chavez hyggst veita óspart af olíuauði Venesúela til þess að hjálpa Níkaragvabúum, en fátækt er þar töluverð.

Sjálfur hefur Chavez einnig heitið því að ganga enn lengra í róttækum þjóðfélagsbreytingum heima fyrir í Venesúela. Meðal annars ætlar hann þjóðnýta orku- og fjarskiptafyrirtæki og hyggst ennfremur fá þingið til að samþykkja aukin völd sér til handa svo hann geti sett ýmis „byltingarlög“ með tilskipun.

Chavez nýtur mikilla vinsælda í landi sínu en hefur jafnan verið Bandaríkjastjórn þyrnir í augum, rétt eins og Ortega í Níkaragva.

Ortega, sem er orðinn 61 árs, spjallaði þó lengi við Michael Leavitt, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, sem var fulltrúi Bandaríkjastjórnar við embættistökuathöfnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×