Erlent

Ræðu Bush tekið heldur fálega

Áform George W. Bush Bandaríkjaforseta um að senda 20 þúsund hermenn til Íraks í viðbót hafa fengið heldur kuldalegar móttökur frá ráðamönnum í Evrópu.

Margaret Beckett, utanríkisráðherra Bretlands, sagði þó að fjölgun hermanna sýndi fram á hve bandarísk og írösk stjórnvöld væru ákveðin í að kveða niður átökin í Írak. Hins vegar tók hún fram að Bretar hefðu engin áform uppi um að senda fleiri hermenn til að styðja Bush.

Í gær hélt breska dagblaðið Telegraph því fram að Bretar ætluðu að kalla heim frá Írak 3.000 af þeim 7.200 bresku hermönnumsem nú eru í Írak.

Demókratar, sem nú hafa meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings, taka einnig illa í fjölgun í herliðinu og ætla að reyna að koma í veg fyrir að þessi síðustu áform forsetans nái fram að ganga. Þeir segja fjölgun bandarískra hermanna í Írak einungis gera illt verra.

„Við ætlum ekki að stunda neina barnapössun í borgarastríði," sagði Barack Obama, einn vinsælasti þingmaður demókrata og hugsanlegur forsetaframbjóðandi flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×