Erlent

Ekki rétt að vélin hafi fundist

Margir ættingjar hinna látnu sátu sorgbitnir á flugvellinum í Surabaja í gær.
Margir ættingjar hinna látnu sátu sorgbitnir á flugvellinum í Surabaja í gær. MYND/AP

Stjórnvöld í Indónesíu báru síðdegis í gær til baka fréttir um að flak farþegaþotu, sem saknað er síðan á mánudag, hefði fundist. Um borð í vélinni voru 96 farþegar og sex manna áhöfn og bentu fyrstu fréttir til þess að tólf manns hefðu hugsanlega lifað af flugslysið.

„Við biðjumst afsökunar á fréttunum sem við sendum frá okkur fyrr í dag,“ sagði einn embættismannanna sem höfðu sagt flakið fundið og níutíu lík sömuleiðis. „Það var ekki rétt.“

Flugvélin týndist í slæmu veðri á mánudaginn og hafði þá sent frá sér tvær neyðartilkynningar. Grunur leikur á að hún hafi farist fjallahéraði á Sulawesi, einni af stærstu eyjum Indónesíu.

Björgunarsveitir gengu klukkutímum saman í gær í úrhellisrigningu eftir torfærum og hálum skógarstígum í leit að flugvélinni. Leitinni var hætt þegar myrkur féll yfir en halda átti af stað á ný í dögun í dag.

Slæmt veður undanfarnar tvær vikur, með roki og miklum rigningum, hefur valdið margvíslegu tjóni á Indónesíu, meðal annars vatnsflóðum, aurskriðum og sjóslysum. Á föstudaginn í síðustu viku fórst meðal annars ferja með um 400 manns innanborðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×