Erlent

Síðasta vígi íslamista tekið með hervaldi

Eþíópískir hermenn slappa af í norðanverðri Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu.
Eþíópískir hermenn slappa af í norðanverðri Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu. MYND/AP

Hersveitir sómölsku bráðabirgðastjórnarinnar með liðsstyrk eþíópískra skriðdreka og orrustuþotna hafa fellt seinasta vígi hreyfingar íslamista, þriðju stærstu borg landsins, Kismayo, að sögn forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, Ali Mohamed Gedi.

Forsætisráðherrann hefur lofað vígamönnum íslömsku hersveitanna sakaruppgjöf, gefi þeir sig fram, en leiðtogar vígahópanna verði að svara til saka.

Jafnframt boðaði forsætisráðherrann allsherjar afvopnun í landinu, en nóg hefur verið til af vopnum í Sómalíu eftir fimmtán ára borgarastyrjöld. Vígamönnum er jafnframt skylt að skila inn vopnum sínum.

„Tími stríðsherranna í Sómalíu er liðinn og ef við náum þeim, þá afhendum við Bandaríkjamönnum þá,“ sagði Gedi. Bráðabirgðastjórn, studd af Sameinuðu þjóðunum, hefur stjórnað landinu í rúman áratug. Æðstaráð íslamista tók völdin í höfuðborginni Mógadisjú fyrir hálfu ári og stefndi að því að gera Sómalíu að ríki að íslömskum sið.

Íslamistar eiga enn afdrep nærri landamærunum að Kenía, en þeir yfirgáfu Mógadisjú friðsamlega fyrir fáeinum dögum og flýðu undan herliði bráðabirgðastjórnarinnar og eþíópísku hersveitunum.

Íslamistarnir hafa verið sakaðir um tengsl við al-Kaída, en þeir hafa hafnað þeim ásökunum. Leiðtogar hryðjuverkahópa hafa hvatt vígamenn íslamista til dáða og hótað skærum í líkingu við þær sem hrjá Írak um þessar mundir.

Stjórnvöld Bandaríkjanna hafa verið beðin um aðstoð við eftirlit með lofthelgi og landhelgi Sómalíu. Heraflar bráðabirgðastjórnar-innar og Sómalíu fjarlægðu jarðsprengjur af hafnarsvæði Kismayo.

Forseti Kenía hefur hvatt til allsherjarfundar um ástandið í Sómalíu og ráðamenn á Vesturlöndum hafa þrýst á að herlið, leitt af Afríkuríkjum, verði sent til landsins til að koma á jafnvægi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×