Erlent

Þrír fórust í níu sprengingum

Lögreglumaður skoðar svæðið þar sem ein af sprengjunum í Bangkok sprakk.
Lögreglumaður skoðar svæðið þar sem ein af sprengjunum í Bangkok sprakk. MYND/AP

Þrír fórust og 38 særðust í níu sprengingum í Bangkok í Taílandi á nýársnótt. Forsætisráðherrann Surayud Chulanont sagði í gær að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem steypt var af stóli fyrir þremur mánuðum stæðu að öllum líkindum bak við árásirnar. Enginn hefur þó lýst sig ábyrgan á þeim.

Fyrrverandi forsætisráðherra Thaksin Shinawatra nýtur enn mikils stuðnings, en hópur herforingja framdi valdarán og kom Surayud til valda fram að kosningum sem verða haldnar í október. Thaksin er nú í útlegð erlendis.

„Ódæðismennirnir hafa slæmar fyrirætlanir og vilja að árásirnar hafi áhrif á stjórnmálaástandið. Þeir vilja láta líta út fyrir að ójafnvægi ríki á Taílandi,“ sagði forsætisráðherrann.

Íslamskir vígamenn hafa framið árásir í suðurhluta landsins, en flest bendir þó til að sprengingarnar hafi ekki tengst þeim skærum.

Heimildarmaður innan hersins segir hóp hátt settra manna í hernum hafa skipulagt sprengingarnar ásamt stjórnmálamönnum sem misstu völd sín í valdaráninu. Ætlunin hafi verið að skaða trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×