Erlent

Tafir á flugi til og frá London

Nokkur hundruð flugum til og frá Heathrow hefur verið aflýst í morgun þar sem þykk þoka liggur yfir flugvellinum annan daginn í röð. Flugvél Icelandair er á leið til Heathrow en tafir verða á flugi til og frá London í dag. Einnig eru tafir á öðrum flugvöllum í London.

Öllu innanlandsflugi hefur verið aflýst til og frá Heathrow í dag og fjöldi millilandavéla hefur ekki farið í loftið. Sky fréttastofan segir að öngþveiti sé á flugvellinum enda fjöldi farþega sem vildu komast heim um jólin eða burt í jólafrí strandaglópar á vellinum.Talsmaður flugvallarins segir að ekki sé búist við að þokunni létti næstu tvo sólarhringana. Á þessum árstíma fara um 190 þúsund farþegar á dag um flugvöllinn.

Morgunvél Icelandair er á leiðinni til Heathrow þessa stundina en hún fór ekki í loftið fyrr en skömmu fyrir tíu. Eins og hálfs tíma seinkun er nú skráð á flugvél British Airways til Gatwick eftir hádegi. Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, segir að morgunvél félagsins hefði aldrei farið í loftið ef ekki hefði legið fyrir staðfesting á að hún gæti lent. Hann sagði að einhverjar flugvélar væru að lenda og taka á loft þrátt fyrir svartaþokuna. Ef í harðbakkann slær eru varaflugvellir sem hægt væri að beina umferð til.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×