Erlent

Beðið eftir konunglegu brúðkaupi

Kate MIddleton, unnusta prinsins, var með svartan hatt með hjartalaga skrauti við útskriftarathöfn Vilhjálms.
Kate MIddleton, unnusta prinsins, var með svartan hatt með hjartalaga skrauti við útskriftarathöfn Vilhjálms. MYND/AP

Breska slúðurpressan bíður með öndina í hálsinum eftir að Vilhjálmur prins biðji unnustu sína, Kate Middleton, að giftast sér. Hún hefur hingað til fengið frið frá ljósmyndurum en eftir að hún var við útskrift hans frá Sandhurst herskólanum byrjaði kjaftagangurinn. Nú telja slúðurfréttamenn, rithöfundar og jafnvel minjagripasmiðir að brúðkaup sé í nánd.

Sandhurst útskriftin var fyrsta opinbera athöfnin sem Kate er viðstödd með meðlimum konungsfjölskyldunnar. Breska slúðurpressan hefur hingað til hlíft henni við vægðarlausri fjölmiðlaathygli sem hrakti Díönu prinsessu, móður Vilhjálms út í dauðann. Hún lést í bílslysi í París með ljósmyndara á hælunum. Verði brúðkaup hins vegar tilkynnt má hins vegar búast við gegndarlausri rannsókn á kvonfangi Bretakonungs framtíðarinnar.

Vilhjálmur og Kate voru saman á heimavist á St Andrews háskólanum í Skotlandi, þar byrjaði rómantíkin á milli þeirra.

Penny Junor, ævisöguritari konungsfjölskyldunnar, segist telja miklar líkur á að þessi sé sú rétta og spurningin sé nú að verða hvenær frekar en ef. Annar kóngafólksálitsgjafi sem Reuters spurði álits sagði hins vegar að ef til þess kæmi að þau giftu sig, þá þyrfti tengdamóðir prinsins að taka sig saman í andlitinu. Það gengi ekki að hún kæmi fram á almannafæri eins og á Sandhurst útskriftinni, þar sem hún tuggði tyggjó allan tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×