Erlent

Rændu hálsfesti af drukknandi konu

MYND/AP

Dómstóll á Srí Lanka hefur dæmt tvo menn til dauða fyrir að valda dauða konu þegar flóðbylgjan mikla skall á eynni annan dag jóla 2004. Myndbandsupptaka sýnir þegar þeir slíta af henni hálsfesti og skilja svo eftir í vatnsflaumnum.

Af þeim 230.000 sem týndu lífi þegar flóðbylgjan mikla dundi yfir strandhéruð Indlandshafsins voru 35.000 frá Srí Lanka. Í þeim hópi var 35 ára gömul kona, Dineti Deshika. Tveir menn sem hefðu getað hjálpað henni frá því að drukkna gerðu það ekki heldur rændu af henni hálsfesti sem hún var með.

Enginn bjargaði Deshiku heldur var hún skilin eftir til að drukkna. Með aðstoð myndbands sem tekið var tókst að bera kennsl á illvirkjana og draga þá fyrir dóm. Fyrst voru þeir ákærðir fyrir að stela hálsfesti konunnar en ákærunni var síðar breytt, meðal annars vegna reiðinnar sem málið vakti á Srí Lanka, í morð af yfirlögðu ráði. Í vikunni dæmdi dómstóll í Galle mennina til dauða en dómnum hefur þegar verið áfrýjað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×