Erlent

Kaffiárgangurinn '77 frá Brasilíu

Þeir eru slyngir í viðskiptunum, Brasilíumenn.
Þeir eru slyngir í viðskiptunum, Brasilíumenn. MYND/Gunnar V. Andrésson

Brasilíumenn treysta nú á að árgangasnobb vínáhugamanna geti smitast yfir í kaffi og kaffisekkirnir seljist dýrar eftir því sem þeir eru eldri. Brasilíumenn eiga nefnilega sitt kaffifjall eins og Íslendingar hafa átt fjöll af ýmsum landbúnaðarafurðum, - og kaffiverð er með hæsta móti um þessar mundir.

Brasilíska stjórnin beitir fyrir sig þeirri þumalputtareglu að óbrenndar og vel geymdar kaffibaunir geti enst í allt að 30 ár. Þessi regla kemur sér prýðisvel, því elstu kaffisekkirnir á lagernum í Brasilíu ku víst vera um 30 ára gamlir. Þetta er því upplagt tækifæri til að hreinsa út úr geymslunum meðan afurðaverðið er hátt og áður en birgðirnar eldast um of.

"Það eina sem tapast er liturinn, baunin gulnar með aldrinum. En sérfræðingar segja að kaffi sem er tryggilega geymt geti enst um 30 ár", segir Lucas Tadeu Ferreira, hjá kaffideild brasilíska Landbúnaðarráðuneytisins.

Og það byrjar vel, því stjórnin seldi 40 þúsund sekki á uppboði á góðu verði í gær og mestur hluti þess kaffis var frá 1977 og 1978.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×