Erlent

Friði fagnað í Nepal

Forsætisráðherra Nepals (t.v.) og leiðtogi Maóista tókust í hendur til þess að innsigla friðarsamkomulagið.
Forsætisráðherra Nepals (t.v.) og leiðtogi Maóista tókust í hendur til þess að innsigla friðarsamkomulagið. MYND/AP

Mikil fagnaðarlæti hafa verið um gjörvallt Nepal eftir að friðarsamningur var undirritaður þar i gærkvöldi. Almenningur hefur flykkst út á götur og fjölmiðlar eru uppfullir af bjartsýnum fyrirsögnum. Friðarsamkomulagið bindur enda á 10 ára uppreisn Maóista gegn ríkisstjórninni og konungsfjölskyldunni.

Átökin hafa orðið liðlega 13 þúsund manns að bana.

Vopnahléssamkomulagið felur í sér að Maóistar fái sæti í ríkisstjórn og að öll þeirra vopn verði sett í vörslu friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna. Kveikt var á kertum víða á almannafæri umsvifalaust eftir að forsætisráðherrann og leiðtogi Maóista undirrituðu samkomulagið í gærkvöldi.

Í tilefni af friðarsamkomulaginu lýsti stjórnin því yfir að dagurinn í dag skyldi verða lögbundinn frídagur, til þess að fólk geti minnst friðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×