Innlent

Deila um styrkveitingu til Fram

Samstaða Sjálfstæðismanna og Alfreðs Þorsteinssonar um styrkveitingu til Fram sýnir að fyrirgreiðslupólitíkin ræður völdum í Reykjavík ef Sjálfstæðismenn komast til valda segir borgarfulltrúi Samfylkingar. Ómerkilegur málflutningur segja hvort tveggja oddviti Sjálfstæðisflokks og formaður Fram.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu í gær atkvæði með tillögu Alfreðs Þorsteinssonar, borgarfulltrúa R-lista, um 25 milljóna króna aukafjárveitingu til íþróttafélagsins Fram vegna byggingar á félagssvæði þeirra. Fram hafði áður verið úthlutað 125 milljónum króna vegna framkvæmdanna en ákvörðun um aukafjárveitingu velkst um í borgarkerfinu um langt skeið.

Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi R-listans og frambjóðandi Samfylkingarinnar, furðar sig á ákvörðuninni. Hann segir að svo virðist sem Alfreð hafi viljað gera vel við félaga sína í Fram áður en hann hætti í borgarstjórn. Hann furðar sig hins vegar á ákvörðun Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og annarra Sjálfstæðismanna að styðja þetta og segir augljóst að Vilhjálmur hafi engu gleymt síðan hann var hluti af borgarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins sem hafi stjórnað með fyrirgreiðslupólitík og klíkuskap að leiðarljósi.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðismanna, segir málflutning Stefáns Jóns afar ómerkilegan. Málið hafi einfaldlega verið afgreitt samkvæmt þeim reglum sem gilda og í samræmi við það sem Íþrótta- og tómstundaráð hafi talið eðlilegt.

Frammarar eru engu sáttari og furða sig á orðum Stefáns Jóns, sem þeir segja undarleg í ljósi þess að Íþrótta- og tómstundaráð hafi verið fylgjandi styrkveitingunni og hún í samræmi við samning Reykjavíkurborgar og Fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×