Innlent

Segir Jón Gerald hafa verið með spuna hjá lögreglu

Jón Gerald Sullenberger var með hreinan spuna hjá lögreglu, segir fyrrverandi tengdasonur Jóhannesar Jónssonar í Bónus. Þar vísar hann í vitnisburð Jóns Geralds um innflutning bíla frá Bandaríkjunum.

Eitt vitni var leitt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í Baugsmálinu í morgun, en aðalmeðferð málsins hefst á mánudag. Það vitni var Jón Garðar Ögmundsson, fyrrverandi eiginmaður Kristínar Jóhannesdóttur, Jóhannesar í Bónus.

Þegar þau viðskipti sem fjallað var um í morgun áttu sér stað voru þau Jón Garðar og Kristín hjón og var Jón Garðar þá framkvæmdastjóri Pönnu pítsa sem rak Pizza Hut, sem var í eigu Gaums, fjárfestingarfélags Bónusfjölskyldunnar.

Saksóknari spurði Jón Garðar ítarlega út í viðskipti sem hann átti við Jón Gerald Sullenberger um áramótin 1999/2000. Jón Garðar sagðist hafa fengið Jón Gerald til að aðstoða sig við að kaupa inn deig og annað hráefni fyrir Pizza Hut frá Bandaríkjunum þar sem það væri hagstæðara.

Eftir nokkra vinnu hafi hins vegar komið í ljós að þau viðskipti gætu ekki gengið þar sem ekki var um sambærilega vöru að ræða og evrópskir birgjar létu í té og samræmdust evrópskum reglum. Hann hafi hins vegar greitt Jóni Gerald fyrir vinnuna, 23.970 bandaríkjadali.

Aðspurður hvort hvort Kristín Jóhannsdóttir hefði á sama tíma verið að kaupa bíl frá Bandaríkjunum sagði þáverandi eiginmaður hennar að hún hefði verið að leita eftir bíl þaðan, en það hafi ekki tengst viðskiptum þeirra nafna.

Lögmaður Kristínar bar skýrslu sem Jón Gerald hafði gefið hjá lögreglu undir Jón Garðar, en þar sagðist Jón Gerald engin viðskipti hafa átt við Pönnu pítsur, en hafi útbúið umræddan reikning á fyrirtækið vegna tveggja bíla sem eigendurnir hafi flutt inn.

Jón Garðar sagði dómnum að hann kannaðist ekkert við þessa bíla og reikningurinn hefði verið fyrir fyrrgreind störf og þeir nafnar hefðu þekkst og átt viðskipti í hálfan annan áratug. Hann sagði framburð Jóns Geralds stórfurðulegan og að hann væri hreinn spuni. Aðalmeðferð málsins verður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag og þriðjudag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×