Innlent

Úrskurður Kjaradóms felldur úr gildi

Alþingi samþykkti í dag frumvarp til laga sem fellir úr gildi úrskurð Kjaradóms frá 19. desember síðastliðnum um launahækkanir til æðstu stjórnenda ríkisins. Stjórnarandstaðan stóð gegn frumvarpinu og vildi fara aðra leið. Fulltrúar hennar telja að frumvarpið geti brotið í bága við stjórnarskrá.

Frumvarpið, sem fellir úr gildi átta prósenta launahækkanir til æðstu stjórnenda ríkisins, var keyrt í gegnum Alþingi í dag þrátt fyrir hávær mótmæli stjórnarandstöðunnar sem telur vafa leika á að frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrárinnar í ljósi þess að allir lögfræðingar sem Efnahags- og viðskiptanefnd kallaði til álitsgjafar hefðu lýst efasemdum um það. Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að það væri ekki rétt að allir lögfræðingar, sem komu fyrir nefndina, hefðu varað við þeirri leið sem ríkisstjórnin valdi. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, svaraði því kröftuglega og áréttaði að umræddir lögfræðingar hefðu lýst efasemdum um að frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar.

Stjórnarandstaðan vildi fara aðra leið í málinu. Vildi hún að úrskurði Kjaradóms yrði frestað á tímabilinu 1. febrúar til 1. júní og að á meðan myndi nefnd fjalla um nýjan lagagrundvöll Kjaradóms. Sú nefnd skyldi svo skila niðurstöðu sinni í formi frumvarps til laga fyrir miðjan mars næstkomandi. Með nýjan lagagrundvöll að leiðarljósi myndi dómurinn svo kveða upp úrskurð á grundvelli nýrra laga og gilti sá úrskurður frá 1. febrúar.

Ögmundur Jónasson alþingismaður sagði aðferð stjórnarandstöðu við að ýta niðurstöðu Kjaradóms út af borðinu vera heppilegri, skynsamlegri og betur í takt við þær ábendingar sem Efnahags- og viðskiptanefnd fékk frá sérfróðum aðilum.

En frumvarpið er nú orðið að lögum sem þýðir að átta prósenta launahækkanir til handa æðstu stjórnendum ríkisins falla úr gildi en í staðinn fá þeir 2,5 prósenta hækkun frá og með fyrsta febrúar. Gildir það sama um forseta Íslands en lagaprófessorarnir Sigurður Líndal og Eiríkur Tómasson hafa lýst miklum efasemdum um að það standist ákvæði 9. greinar stjórnarskrárinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×