Erlent

Níu mánaða vopnahléi lokið

Deilur ETA og Spánarstjórnar hafa varað í marga áratugi.
Deilur ETA og Spánarstjórnar hafa varað í marga áratugi. MYND/AP

26 særðust og tveir eru ófundnir vegna kröftugrar sprengingar í bíl á alþjóðaflugvellinum í Madríd á Spáni í gær. Aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, eru talin ábyrg fyrir sprengingunni.

Níu mánaða vopnahlé virðist fyrir bí, en ríkisstjórn Spánar hefur sóst eftir viðræðum við ETA til að binda enda á áratugalangar deilur og átök.

Sprengingin átti sér stað á margra hæða bílastæði klukkan níu um morgun á einum mesta ferðadegi ársins.

Varúðarsímtal barst frá ETA stuttu áður en sprengingin varð. Sendiferðabíll sprakk í loft upp og fylgdi sprengingunni reykur og grjótkast, svo að margir bílar skemmdust.

Tveir menn týndust í brakinu og 26 manns særðust lítillega, flestir með skaddaða heyrn vegna höggbylgju sprengingarinnar. Lögreglumaður lenti undir regni af brotnu gleri og skarst illa.

Slökkviliðsmenn unnu að því að slökkva eld á svæðinu, en stór hluti byggingarinnar var illa farinn eftir sprenginguna.

Enginn hefur látist í árásum ETA síðan í maí 2003. Ríkisstjórn Spánar lýsti yfir óánægju sinni með að vopnahléinu væri lokið og gaf í skyn að lítið yrði úr samningaviðræðum við ETA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×