Innlent

Vísar fullyrðingum Jónínu á bug

Og Vodafone vísar fullyrðingum Jónínu Benediktsdóttur, sem fram komu í hádegisfréttum Bylgjunnar um meðferð á tölvupósti, alfarið á bug. Hún hafi með orðum sínum vegið harkalega að fyrirtækinu með ómaklegum hætti, auk þess sem hún ásaki starfsmenn fyrirtækisins um brot á lögum. Fyrirtækið muni því skoða réttarstöðu sína og starfsmanna frekar. Í tilkynningu sem Og Vodafone sendi rétt í þessu segir: Og Vodafone vísar fullyrðingum Jónínu Benediktsdóttur, sem fram komu í fréttum Bylgjunnar um meðferð á tölvupósti, alfarið á bug. Jafnframt vill Og Vodafone taka fram:Og Vodafone er alhliða fjarskiptafyrirtæki sem þjónustar þúsundir einstaklinga og fyrirtækja. Fyrirtækið sinnir meðal annars ört vaxandi internet þjónustu, svo sem hýsingu á tölvupósti og vefjum. Fyrirtækið byggir starfsemi sína á öflugu og traustu starfsfólki og fullkomnum og öruggum tæknibúnaði.Það er starfsfólki og eigendum Og Vodafone mikið kappsmál að tryggja að fyrirtækið njóti trausts viðskiptavina sinna.Af þeim sökum telur fyrirtækið það háalvarlegt mál þegar því er haldið fram að Og Vodafone tengist með ólögmætum hætti dreifingu á tölvupósti eða persónulegum gögnum viðskiptavina. Í raun er ekki einungis um að ræða ásakanir á hendur eigendum Og Vodafone heldur ennfremur því starfsfólki sem starfar hjá fyrirtækinu.Beinn aðgangur að póstþjóni sem hýsir póst viðskiptavina Og Vodafone einskorðast við mjög fáa starfsmenn, sem allir hafa undirritað trúnaðaryfirlýsingu, vegna starfa sinna hjá fyrirtækinu. Þessi aðgangur er eingöngu vegna kerfisumsýslu og viðhalds. Jafnframt eru skýr fyrirmæli í fjarskiptalögum um meðferð persónuupplýsinga.Og Vodafone telur því ummæli Jónínu Benediktsdóttur, þar sem hún gefur í skyn að fyrirtækið tengist með einhverjum hætti dreifingu á tölvupósti í hennar eigu, mjög alvarleg. Hún hefur með orðum sínum vegið harkalega að fyrirtækinu með ómaklegum hætti. Jafnframt ásakar hún starfsmenn fyrirtækisins um brot á lögum. Fyrirtækið mun því skoða réttarstöðu sína og starfsmanna frekar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×